Lauk námi í viðskiptafræði en fann ástríðuna í kennslu
Nýlega var gengið frá ráðningu nýs skólastjóra Gerðaskóla en það var heimamaðurinn Jón Ragnar Ástþórsson sem fékk starfið. Jón hafði verið kennari við skólann undanfarin ár og tók við aðstoðarskólastjórastöðu síðasta haust og þegar stutt var liðið á skólaárið varð hann starfandi skólastjóri.
Býr í göngufæri við skólann
„Ég réði mig sem aðstoðarskólastjóra síðasta sumar og á sama tíma var ráðinn nýr skólastjóri. Það gekk ekki og hann hætti störfum tiltölulega fljótlega, í september, og þá tók ég tímabundið við skólastjórastöðunni. Lögum samkvæmt var staðan auglýst eftir áramót og þá sótti ég um ásamt tveimur öðrum og var svo ráðinn nýlega.“
Þú býrð bara rétt hjá skólanum, er það ekki?
„Jú, ég hugsa að það nái ekki fimm mínútum fyrir mig að ganga í skólann sem er mjög þægilegt.“
Ertu uppalinn Garðmaður?
„Já, ég flutti hingað þriggja ára og gekk í Gerðaskóla alla mína grunnskólagöngu. Reyndar fluttum við svo til Keflavíkur þegar ég fór í framhaldsskóla. Þar kynntist ég svo konunni minni [Þórunni Kötlu Tómasdóttur] og við keyptum okkur íbúð í Keflavík sem við bjuggum í í nokkur ár áður en við fluttum svo til Danmerkur.“
Jón hefur ekki langa reynslu af kennslu eða skólakerfinu en þau héldu til Danmerkur og voru þar í fimm ár þar sem hann lagði stund á viðskiptanám í Copenhagen Business School.
„Það var mjög góður tími og þar kláraði ég bachelor og útskrifaðist með masters-gráðu í markaðsfræði og stjórnun árið 2010. Þegar við fórum út var konan í fjarnámi frá Kennaraháskólanum á Íslandi og við með einn eins árs gamlan strák með okkur. Þegar við komum heim fimm árum seinna vorum við með þrjá drengi og þrjár háskólagráður. Það er nokkuð vel af sér vikið á fimm árum.
Fyrst eftir að við komum heim vann ég í fjölskyldufyrirtækinu á meðan ég var að finna mér starf en pabbi og mágur minn stofnuðu og eiga Völundarhús. Það var svo árið 2011 að ég var ráðinn til Samkaupa og ég var innkaupastjóri þar í tvö ár. Það var mjög góður tími og góð reynsla sem ég öðlaðist þar því áður en ég fór í námið hafði ég bara unnið hefðbundin verkamannastörf, var á flugvellinum í hlaðdeild, catering og svoleiðis. Nú eftir tvö ár hjá Samkaupum fékk ég símtal og hóf störf í Skólamat þar sem ég var rekstrarstjóri næstu sex ár.“
Vildi breyta til
Eftir sex ár hjá Skólamat voru breytingar í farvatninu hjá fyrirtækinu og Jón var farinn að vilja breyta til, því skildu leiðir. Jón vildi skipta um starfsvettvang og reyna fyrir sér í einhverju öðru en vissi ekki almennilega hverju.
„Ég er líka fótboltaþjálfari og mig langaði dálítið að láta reyna á það almennilega og réði mig í svolítið mikla þjálfun yngri flokka hjá Reyni/Víði. Það dugði hins vegar ekki til að ná endum saman, enda erum við fimm manna fjölskylda. Ég var því eitthvað farinn að líta í kringum mig þegar Eva, þáverandi skólastjóri, spurði konuna mína hvort mig vantaði ekki einhverja viðbót við það sem ég var að gera. Það passaði svo, hún hafði samband og réði mig í hálft starf við kennslu.
Ég var búinn að vera að þjálfa unga drengi í smá tíma og fann mig vel í því að vinna með börnum svo ég sá að það hentaði vel að fara í hálft starf í Gerðaskóla og málin þróuðust eftir það. Ég var að fást við ýmis verkefni, m.a. umsjónarkennslu og afleysingar þegar einhver fór í veikindaleyfi – þannig að ég fékk smjörþefinn strax. Skólasamfélagið var heimur sem ég þekkti ekki neitt, mjög sérstakt umhverfi sem ég hafði ekki komið nálægt frá því að ég útskrifaðist sjálfur úr Gerðaskóla. Ég kunni strax vel við starfið og skellti mér beint í nám haustið eftir til að sækja mér kennsluréttindi.“
Jón gat nýtt menntunina sem hann var með og náði sér í diploma-gráðu á einu ári. „Þá var ég að þjálfa gríðarlega mikið, vann í skólanum og tók svo fullt nám. Það má líkja þessu við vertíð, ég var eiginlega í þremur fullum störfum. Það var rosaleg keyrsla en ég vildi bara klára þetta, sem tókst bara mjög vel.
Ég var mjög sáttur í kennslunni, fannst hún gefandi og skemmtileg. Svo kemur sú staða upp að bæði aðstoðarskólastjórinn og skólastjórinn segja starfi sínu lausu síðasta vor og ég með minn stjórnunarbakgrunn, bæði úr Skólamat og Samkaupum, fór þá að velta þessu fyrir mér. Þarna sá ég því tækifæri til að sameina þetta tvennt, ég var búinn að finna ástríðuna í kennslunni og að geta nýtt mína stjórnunarmenntun og -reynslu. Ég sótti því um aðstoðarskólastjórastöðuna síðasta sumar og fékk hana.“
Knattspyrnuþjálfun og bæjarpólitík
Jón hefur áhuga á allflestum íþróttum, aðallega segist hann þó brenna fyrir fótbolta og hann fylgist einnig vel með íslenskum körfubolta. Hann spilaði yfir hundrað leiki með meistaraflokki Víðis en lagði knattspyrnuferilinn á hilluna þegar hann hélt erlendis í nám.
„Ég er ennþá að þjálfa fótbolta og er núna með annan flokk Njarðvíkur. Ég þjálfaði annan flokk Keflavíkur í þrjú, fjögur ár þar á undan og við náðum stórgóðum árangri síðasta sumar, unnum B-deildina og komumst í bikarúrslitaleik þar sem við töpuðum í vítaspyrnukeppni fyrir Val, að ég held í fjölmennasta leik sumarsins á Keflavíkurvelli í fyrra.
Svo er ég að sprikla með old boys Keflavíkur og Víðis svona einu sinni í viku en við höfum verið að gera það gott og nokkrum sinnum náð því að verða Íslandsmeistarar í okkar flokki – svo er ég á fullu í golfinu en maður verður að sjá til hvort nýja starfið komi til með að hafa einhver áhrif á áhugamálin.“
Þá er bæjarpólitíkin eitthvað sem Jón Ragnar hefur látið sig varða og hann er varabæjarfulltrúi O-listans í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar.
„Ég hef verið varabæjarfulltrúi í Suðurnesjabæ frá því að hann var stofnaður, fyrst fyrir Sjálfstæðismenn og óháða. Ég legg áherslu á óháða því ég var klárlega í þeim hluta. Svo stofnuðum við nokkur nýtt framboð, Bæjarlistann, fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þar sem ég var í þriðja sæti. Þetta er þverpólitískt framboð en ekki flokkur, bara fólk sem ber hag bæjarfélagsins fyrir brjósti.“
Þá kannski sláum við botninn í þetta samtal og spyrjum knattspyrnuþjálfarann og varabæjarfulltrúann: Hvar á gervigrasvöllurinn í Suðurnesjabæ að rísa?
„Í mínum huga og afstaða Bæjarlistans er staðsetningin skýr og var það fyrir kosningar. Við viljum að nýr völlur rísi á milli bæjarkjarnanna, í Miðjunni svokölluðu. Svo sé ég fyrir mér að á einhverjum tímapunkti verði meistaraflokkar þessara félaga sameinuð og þá held ég að það sé farsælast að vera með völl á hlutlausum stað.
Manni heyrist að það séu komnar upp efasemdaraddir um hvort sameining hafi verið rétt. Það gengur illa að sameinast í hjörtum fólks getur maður sagt. Þetta væri mjög táknrænt um að við værum að sameinast og byrja að byggja upp sameiginlega þjónustu fyrir bæjarbúa.
Þetta er að mínu viti mjög stefnumótandi ákvörðun og svona ákvarðanir eiga að vera teknar á grundvelli einhverrar framtíðarsýnar og stefnumótunar. Miðjan er skilgreind sem íþróttasvæði í aðalskipulagi og við hljótum að vilja sjá einhverja uppbyggingu á þessu svæði á einhverjum tímapunkti og þá er hægt að líta á þetta sem framtíðarfjárfestingu, eins og að leggja lagnir og þess háttar kemur til með að nýtast þeirri byggð sem mun rísa þarna,“ sagði skólastjórinn, fótboltaþjálfarinn og varabæjarfulltrúinn að lokum.